LOCAL lögmenn hafa margra ára reynslu og þekkingu af verkefnum tengdum hjúskapar- og sambúðarmálum. Þjónusta okkar felst m.a. í gerð kaupmála vegna hjúskapar. Jafnframt veitum við alhliða ráðgjöf við hjónaskilnað og sambúðarslit s.s. í tengslum við gerð fjárskiptasamninga og aðra nauðsynlega skjalagerð.

Fyrir marga getur skilnaður verið eitt stærsta áfall sem fólk verður fyrir. Þá er mikilvægt að leita sér stuðnings og faglegrar ráðgjafar, enda miklir hagsmunir í húfi og brýnt að staðið sé rétt að málum.

Hér að neðan má finna hagnýtar upplýsingar varðandi hjónaskilnað, sambúðarslit og gerð kaupmála.

Kaupmáli

Kaupmáli er formfastur skriflegur samningur sem aðeins er gerður á milli tveggja einstaklinga sem eru ganga í hjúskap eða hafa gengið í hjúskap.

Kaupmálar eru gjarnan gerðir á milli fólks sem er að ganga í hjónaband ef verulegur munur er á eigna/skuldastöðu fólks við upphaf hjúskapar. Kaupmálar eru skráðir í sérstaka kaupmálabók hjá sýslumanni og eru þannig opinbert skjal.

Það getur verið æskilegt að ganga frá kaupmála við upphaf hjúskapar til að tryggja að, ef til skilnaðar kæmi, að hvort um sig geti haldið þeim verðmætum sem það kemur með í hjúskapinn.

Þótt kaupmálar séu aðallega útbúnir við upphaf hjúskapar þá er heimilt að gera kaupmála eftir að fólk hefur gengið í hjúskap. Hins vegar getur kostnaður við slíka kaupmála verið meiri, ef breyta þarf eignarhaldi á skráðum fasteignum.

Hjónaskilnaður

Þegar fólk hefur gengið í hjúskap, en af einhverjum ástæðum vill slíta hjúskapnum er hægt að óska eftir skilnaði að borði og sæng. Í undantekningartilfellum er hægt að óska eftir beinum lögskilnaði.
Ef hjón eru sammála um að slíta hjúskapnum geta þau leitað til sýslumanns en ella þurfa þau að leita eftir atbeina dómstóla.

Þegar fólk hefur gengið í hjúskap, en vill slíta hjúskapnum af einhverjum ástæðum, er hægt að óska eftir skilnaði að borði og sæng. Í ákveðnum tilfellum er hægt að óska eftir beinum lögskilnaði.

Ef hjón eru sammála um að slíta hjúskapnum geta þau leitað til sýslumanns en ella þurfa þau að leita eftir atbeina dómstóla.

Þegar hjón skilja að borði og sæng þarf annar aðilinn að flytja lögheimili sitt á nýjan stað. Svigrúm er gefið til að leita nýs húsnæðis en taki það lengri tíma en eðlilegt má telja fellur skilnaður að borði og sæng niður.

Réttaráhrifin við skilnað að borði og sæng eru þau að fjárfélagi er slitið og aðilar hætta að bera gagnkvæma ábyrgð á sköttum og öðrum opinberum gjöldum. Þá fellur gagnkvæmur erfðaréttur niður. Hins vegar er gagnkvæm framfærsluskylda þar til lögskilnaður hefur verið veittur.

Réttaráhrif skilnaðar að borði og sæng falla niður ef hjón taka upp sambúð að nýju nema um sé að ræða stutta tilraun til þess að endurvekja hjúskapinn. Þá fellur skilnaður að borði og sæng einnig niður ef aðilar búa áfram saman umfram þann tíma sem eðlilegt má teljast að taki að afla nýs húsnæðis.

Til að heimilt sé að ganga í hjónaband með öðrum aðila, er ekki nægjanlegt að hafa skilið að borði og sæng, heldur þarf að koma til lögskilnaðar.

Öll lagatengsl milli hjóna hafa verið rofin og hvoru um sig er heimilt að ganga í hjónaband að nýju.

Séu aðilar sammála um að leita skilnaðar þarf að panta tíma hjá sýslumanni í því umdæmi sem hjón eru með lögheimili. Hjón geta mætt saman eða í sitt hvoru lagi. Í kafla hér neðar á síðunni má sjá hvaða gögn er nauðsynlegt að mæta með.

Eftir að skilnaðarleyfi hefur verið gefið út geta hjón óskað eftir lögskilnaði sex mánuðum síðar.

Ef hjón eru ekki sammála um að leita eftir skilnaði að borði og sæng er ekki hægt að leita til sýslumanns. Þá er nauðsynlegt að leita til dómstóla og setja fram kröfu með formlegum hætti.

Í ákveðnum tilvikum getur annað hjóna krafist lögskilnaðar án þess að fyrst hafi komið til skilnaðar að borði og sæng. Um er að ræða tilfelli ef annað hjóna játar hjúskaparbrot, hefur orðið fyrir líkamsárás, kynferðisbroti eða ef hinn aðilinn verður uppvísa um tvíkvæni. Sama gildir ef hjón hafa slitið samvistir vegna ósamlyndis og getur þá hvort þeirra krafist lögskilnaðar þegar samvistaslit hafa staðið í tvö ár hið skemmsta.

Til að hægt sé að leita eftir beinum lögskilnaði þurfa, líkt og þegar um skilnað að borði og sæng er að ræða, báðir aðilar að vera sammála um að leita eftir lögskilnaði á þessum grundvelli, ella þarf að leita til dómstóla.

Sættir

Þegar hjón hafa börn á heimili sínu undir 18 ára aldri verður að leita sátta með þeim. Sýslumaður eða dómari leitar um sættir eftir því hvar mál er til meðferðar. Heimilt er að fela presti eða forstöðumanni trúfélags eða lífsskoðunarfélags að leita um sættir ef hjón eru sammála um að óska þess.

Sáttatilraun skal að jafnaði hafa farið fram á síðustu sex mánuðum áður en mál er höfðað eða sett fram krafa um skilnað að borði og sæng eða lögskilnað fyrir sýslumanni, en í síðasta lagi áður en skilnaður er veittur.

Barn eða börn hjóna

Ef hjón eiga saman börn yngri en 18 ára þarf að ákveða hvort þeirra skuli fara með forsjá barnanna eða hvort hún skuli vera sameiginleg. Sama foreldrið þarf ekki að fara með forsjá allra barnanna. Sé ágreiningur um forsjána þarf að leysa úr þeim ágreiningi fyrir dómstólum.

Þá þarf að semja um hvernig skipta skuli kostnaði vegna framfærslu sameiginlegra barna. Slíkir samningar skulu ávallt taka mið af því sem best hentar hag og þörfum barnsins. Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna geta foreldrar samið um að hitt foreldrið sinni framfærsluskyldu sinni með greiðslu meðlags..

Hjón geta líka samið um skipta búsetu barns þannig að barnið eigi fasta búsetu hjá þeim báðum. Forsendur þess að semja um skipta búsetu barns eru þær að aðilar geti komið sér saman um atriði er snúa að umönnun og uppeldi barnsins og að búsetu foreldra sé þannig háttað að barnið sæki einn skóla eða leikskóla og eigi frjálsan og greiðan aðgang að samfelldu tómstundastarfi og öðrum frístundum frá báðum heimilum. Ef samið er um skipta búsetu barns skulu foreldrar ákveða hjá hvoru þeirra barnið skuli eiga lögheimili og hjá hvoru þeirra barnið skuli eiga búsetuheimili hér á landi. Við staðfestingu sýslumanns á samningi um skipta búsetu fellur niður samningur, úrskurður, dómsátt eða dómur sem kann að liggja fyrir um umgengni og meðlag.

Ef ekki er um að ræða samning um skipta búsetu getur það foreldri þar sem barn á lögheimili krafist þess að meðlag sé ákveðið og innheimt. Sama rétt hefur sá sem stendur straum af útgjöldum vegna framfærslu barns enda búi barnið alfarið hjá honum.

Tryggingastofnun sér um innheimtu og greiðslu meðlags. Barn á rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Foreldri sem barn býr ekki hjá á rétt og ber skylda til að rækja umgengni við barn sitt. Foreldri sem barn býr hjá er skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema hún sé andstæð hag og þörfum barns að mati dómara eða lögmælts stjórnvalds.

Foreldri sem nýtur umgengni er heimilt að taka þær nauðsynlegu ákvarðanir um daglegt líf barnsins sem fylgja umgengninni. Foreldri sem barn býr hjá ber að tryggja að foreldri sem nýtur umgengni fái nauðsynlegar upplýsingar til þess að umgengnin þjóni hag og þörfum barnsins. Foreldrar geta samið um hvernig skipa skuli umgengnisrétti, þ.m.t. hvort þeirra greiði kostnað vegna umgengni.

Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna geta foreldrar óskað staðfestingar sýslumanns á umgengissamningiFjárskipti hjóna

Til að hægt sé að ganga frá skilnaði þarf að leggja fram skriflegan fjárskiptasamning og staðfesta samninginn við fyrirtöku hjá sýslumanni.

Í því tilfelli sem hjón eru eignalaus er yfirlýsing þeirra þess efnis færð í gerðabók sýslumanns og þá þarf ekki að leggja fram fjárskiptasamning.

Ef hjón eru ekki sammála um fjárskiptin þarf að bera málið undir héraðsdóm og óska eftir opinberum skiptum á búinu. Sýslumaður getur veitt skilnaðarleyfi þegar úrskurður héraðsdóms liggur fyrir um að opinber skipti skuli fara fram.

Fjárskipti hjóna

Til að hægt sé að ganga frá skilnaði þarf að leggja fram skriflegan fjárskiptasamning og staðfesta samninginn við fyrirtöku hjá sýslumanni.

Í því tilfelli sem hjón eru eignalaus er yfirlýsing þeirra þess efnis færð í gerðabók sýslumanns og þá þarf ekki að leggja fram fjárskiptasamning.

Ef hjón eru ekki sammála um fjárskiptin þarf að bera málið undir héraðsdóm og óska þess að opinber skipti á búinu fari fram til fjárslita. Sýslumaður getur veitt skilnaðarleyfi þegar úrskurður héraðsdóms um að opinber skipti skuli fara fram liggur fyrir.

Framfærsla hjóna

Hjón eru framfærsluskyld hvort við annað, því verður að taka afstöðu til þess hvort annað hjóna skuli greiða hinu framfærslueyri eða lífeyri. Gagnkvæm framfærsluskylda fellur niður við lögskilnað.

Sé ágreiningur milli hjóna um greiðslu framfærslu- eða lífeyris úrskurðar sýslumaður, en heimilt er að kæra slíka ákvörðun til dómsmálaráðuneytisins.

Sambúðarslit

Ef sambúðaraðilar eiga ekki sameiginleg börn þurfa þeir ekki að leita til sýslumanns vegna sambúðarslita. Sambúðaraðilar tilkynna þá einungis um breytt lögheimili til Þjóðskrár Íslands og þá eru sambúðarslitin staðfest.

Eigi sambúðaraðilar sameiginlegar eignir eða skuldir er þeim í sjálfsvald sett hvernig þeir skipta þeim eignum og skuldum, milli sín.

Þegar sambúðaraðilar eiga sameiginleg börn er þeim skylt að ákveða hvernig fari með forsjá þeirra, það er hvort forsjáin verði hjá öðru foreldri eða sé sameiginleg. Þá ber þeim að ákveða hvernig meðlagsgreiðslum með börnum skuli háttað.

Séu aðilar sammála um hvernig staðið skuli að forsjánni geta aðilar leitað til sýslumanns, ella þarf að leita atbeina dómstóla.

Við fyrirtöku hjá sýslumanni þurfa sambúðaraðilar að leggja fram fæðingarvottorð barns eða barna. Fæðingarvottorð má nálgast hjá Þjóðskrá Íslands.

Ef aðilar eru sammála um hvernig forsjá barns/barna og meðlagsgreiðslum skuli háttað gefur sýslumaður út skjal til staðfestingar á sambúðarslitum.

Ef sambúðaraðilar eiga saman börn yngri en 18 ára þarf að ákveða hvort þeirra skuli fara með forsjá barnanna eða hvort hún skuli vera sameiginleg. Sama foreldrið þarf ekki að fara með forsjá allra barnanna. Sé ágreiningur um forsjána þarf að leysa úr þeim ágreiningi fyrir dómstólum.

Jafnframt þarf að ákveða meðlag með hverju barni. Samkvæmt lögum ber því foreldri að greiða meðlag sem ekki fer með forsjá barns. Tryggingastofnun ber ábyrgð á greiðslu einfalds meðlags og því getur það foreldri sem fer með forsjá barns snúið sér til Tryggingastofnunar. Ef hins vegar er ákveðið að meðlagið sé meira en einfalt, þá verður forsjárforeldri að innheimta meðlagið sjálft úr hendi hins foreldrisins. Tryggingastofnun veitir ekki ábyrgð á greiðslum umfram einfalt meðlag.

Þegar staðfest hefur verið af hálfu sýslumanns eða dómstóla hvernig forsjánni skuli háttað er hægt að leita til Tryggingastofnunar.

Ekki er skilyrði að ákveða hvernig umgengni verði við börnin, af hálfu þess sem fer ekki með forsjá, þegar gengið er frá sambúðarslitum.