Sættir
Þegar hjón hafa börn á heimili sínu undir 18 ára aldri verður að leita sátta með þeim. Sýslumaður eða dómari leitar um sættir eftir því hvar mál er til meðferðar. Heimilt er að fela presti eða forstöðumanni trúfélags eða lífsskoðunarfélags að leita um sættir ef hjón eru sammála um að óska þess.
Sáttatilraun skal að jafnaði hafa farið fram á síðustu sex mánuðum áður en mál er höfðað eða sett fram krafa um skilnað að borði og sæng eða lögskilnað fyrir sýslumanni, en í síðasta lagi áður en skilnaður er veittur.
Barn eða börn hjóna
Ef hjón eiga saman börn yngri en 18 ára þarf að ákveða hvort þeirra skuli fara með forsjá barnanna eða hvort hún skuli vera sameiginleg. Sama foreldrið þarf ekki að fara með forsjá allra barnanna. Sé ágreiningur um forsjána þarf að leysa úr þeim ágreiningi fyrir dómstólum.
Þá þarf að semja um hvernig skipta skuli kostnaði vegna framfærslu sameiginlegra barna. Slíkir samningar skulu ávallt taka mið af því sem best hentar hag og þörfum barnsins. Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna geta foreldrar samið um að hitt foreldrið sinni framfærsluskyldu sinni með greiðslu meðlags..
Hjón geta líka samið um skipta búsetu barns þannig að barnið eigi fasta búsetu hjá þeim báðum. Forsendur þess að semja um skipta búsetu barns eru þær að aðilar geti komið sér saman um atriði er snúa að umönnun og uppeldi barnsins og að búsetu foreldra sé þannig háttað að barnið sæki einn skóla eða leikskóla og eigi frjálsan og greiðan aðgang að samfelldu tómstundastarfi og öðrum frístundum frá báðum heimilum. Ef samið er um skipta búsetu barns skulu foreldrar ákveða hjá hvoru þeirra barnið skuli eiga lögheimili og hjá hvoru þeirra barnið skuli eiga búsetuheimili hér á landi. Við staðfestingu sýslumanns á samningi um skipta búsetu fellur niður samningur, úrskurður, dómsátt eða dómur sem kann að liggja fyrir um umgengni og meðlag.
Ef ekki er um að ræða samning um skipta búsetu getur það foreldri þar sem barn á lögheimili krafist þess að meðlag sé ákveðið og innheimt. Sama rétt hefur sá sem stendur straum af útgjöldum vegna framfærslu barns enda búi barnið alfarið hjá honum.
Tryggingastofnun sér um innheimtu og greiðslu meðlags. Barn á rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess. Foreldri sem barn býr ekki hjá á rétt og ber skylda til að rækja umgengni við barn sitt. Foreldri sem barn býr hjá er skylt að stuðla að því að barn njóti umgengni við hitt foreldri sitt nema hún sé andstæð hag og þörfum barns að mati dómara eða lögmælts stjórnvalds.
Foreldri sem nýtur umgengni er heimilt að taka þær nauðsynlegu ákvarðanir um daglegt líf barnsins sem fylgja umgengninni. Foreldri sem barn býr hjá ber að tryggja að foreldri sem nýtur umgengni fái nauðsynlegar upplýsingar til þess að umgengnin þjóni hag og þörfum barnsins. Foreldrar geta samið um hvernig skipa skuli umgengnisrétti, þ.m.t. hvort þeirra greiði kostnað vegna umgengni.
Ef barn á fasta búsetu hjá öðru foreldra sinna geta foreldrar óskað staðfestingar sýslumanns á umgengissamningiFjárskipti hjóna
Til að hægt sé að ganga frá skilnaði þarf að leggja fram skriflegan fjárskiptasamning og staðfesta samninginn við fyrirtöku hjá sýslumanni.
Í því tilfelli sem hjón eru eignalaus er yfirlýsing þeirra þess efnis færð í gerðabók sýslumanns og þá þarf ekki að leggja fram fjárskiptasamning.
Ef hjón eru ekki sammála um fjárskiptin þarf að bera málið undir héraðsdóm og óska eftir opinberum skiptum á búinu. Sýslumaður getur veitt skilnaðarleyfi þegar úrskurður héraðsdóms liggur fyrir um að opinber skipti skuli fara fram.
Fjárskipti hjóna
Til að hægt sé að ganga frá skilnaði þarf að leggja fram skriflegan fjárskiptasamning og staðfesta samninginn við fyrirtöku hjá sýslumanni.
Í því tilfelli sem hjón eru eignalaus er yfirlýsing þeirra þess efnis færð í gerðabók sýslumanns og þá þarf ekki að leggja fram fjárskiptasamning.
Ef hjón eru ekki sammála um fjárskiptin þarf að bera málið undir héraðsdóm og óska þess að opinber skipti á búinu fari fram til fjárslita. Sýslumaður getur veitt skilnaðarleyfi þegar úrskurður héraðsdóms um að opinber skipti skuli fara fram liggur fyrir.
Framfærsla hjóna
Hjón eru framfærsluskyld hvort við annað, því verður að taka afstöðu til þess hvort annað hjóna skuli greiða hinu framfærslueyri eða lífeyri. Gagnkvæm framfærsluskylda fellur niður við lögskilnað.
Sé ágreiningur milli hjóna um greiðslu framfærslu- eða lífeyris úrskurðar sýslumaður, en heimilt er að kæra slíka ákvörðun til dómsmálaráðuneytisins.